WRC Fréttir

Toyota allsráðandi í Þýskalandi

Toyota læsti verðlaunapallinum í þýska rallinu sem fram fór um helgina, rallið var það tíunda í heimsmeistaramótinu.

Eistlendingurinn Ott Tanak hafði unnið keppnina síðastliðin tvö ár. Tanak náði forustunni strax á fyrstu leið en varð að láta hana af hendi til Thierry Neuville á Hyundai á annari leið, fyrstu leið föstudagsins.

Neuville missti forustu þó strax aftur og lét Tanak hana aldrei af hendi eftir það. Ökuþórarnir börðust gríðarlega allan föstudaginn en á hinni 40 kílómetra löngu Panzerplatte leið sprengdi Thierry dekk og þar með var sagan öll.

Liðsfélagar Tanak hjá Toyota, þeir Kris Meeke og Jari-Matti Latvala eru að berjast um sæti sín hjá liðinu. Árangur þeirra á tímabilinu hefur ekki verið góður og var því pressa á þeim í Þýskalandi að standa sig.

Óhætt er að segja að þeir svöruðu kalli Tommi Makinen, liðstjóra Toyota. Meeke varð annar á eftir liðsfélaga sínum og Latvala þriðji og voru því allir þrír Yaris bílarnir á verðlaunapalli.

Sebastian Ogier, ríkjandi heimsmeistari, var í hörkuslag við Meeke og Latvala þar til hann, líkt og Neuville, sprengdi dekk á grófa malbikinu á Panzerplatte. Að lokum endaði Frakkinn áttundi.

Úrslitin þýða að Toyota færist nær Hyundai í keppni bílasmiða, nú eru aðeins átta stig milli liðanna og fjórar keppnir eftir.

Ott Tanak hefur nú tekið afgerandi forustu í heimsmeistaramótinu eftir fjóra sigra í síðustu fimm röllum. Forskot hans er komið í 33 stig á Thierry Neuville en Sebastien Ogier féll niður í þriðja sæti, 40 stigum á eftir Eistanum.

 

ADAC-Þýskaland-Ökumenn
Fjórði sigur Tanak í fimm röllum.
ADAC-Þýskaland-Ökumenn-Mótið
Ott Tanak er með talsverða forustu þegar fjögur mót eru eftir.
ADAC-Þýskaland-Liðin-Mótið
Hyundai og Toyota eru langt á undan Citroen og Ford.

 

Bragi Þórðarson

Leave a Reply