Myndband: Ogier setur spennu í heimsmeistaramótið

 

Sebastian Ogier og Julian Ingrassia stóðu uppi sem sigurvegarar í tyrkneska rallinu sem fór fram um helgina.

Fyrir rallið voru Frakkarnir, sem unnið hafa heimsmeistaratitilinn síðustu sex ár, rúmum þrjátíu stigum á eftir fyrsta sætinu.

Þar sátu Ott Tanak og Martin Jarveoja en Eistarnir urðu frá að hverfa á öðrum degi í Tyrklandi eftir að vélartölva bilaði í Yaris bifreið þeirra. Tanak hafði því engu að tapa á ofurleiðinni og náði langbesta tímanum til að tryggja sér fimm stig í mótinu.

Thierry Neuville og Nicolas Gilsoul gátu ekki nýtt sér ófarir Tanak og eftir að hafa oltið á hliðina á öðrum degi urðu Belgarnir að sætta sig við áttunda sætið.

Helgin var frábær fyrir Citroen liðið þar sem Esapekka Lappi og Jarno Ferm enduðu í öðru sæti á eftir Ogier. Þetta var í fyrsta skiptið síðan í argentíska rallinu árið 2015 sem liðið nær að landa fyrsta og öðru sætinu.

Í síðasta verðlaunasætinu komu Andreas Mikkelsen og Anders Jaeger á Hyundai. Kóreska liðið stóð sig betur en Toyota um helgina og jók forskot sitt í keppni bílasmiða í 19 stig.

Sigur Ogier hleypir aftur spennu í keppni ökuþóra. Tanak er enn efstur en er nú aðeins 17 stigum á undan Frakkanum, þar á eftir kemur Neuville, 13 stigum á eftir Ogier. Næsta keppni er hið sögufræga velska rall en þar hefur Ogier alls unnið fjórum sinnum.

Hér má sjá allt það helsta frá gríðarlega grófu og krefjandi ralli helgarinnar:

 

Bragi Þórðarson

Leave a Reply