Upphitun: Stærsta rall ársins um helgina

Um helgina fer fram hið árlega Wales Rally GB sem er eitt það allra vinsælasta í heimsmeistaramótinu.

Eftir sigur Sebastien Ogier í tyrkneska rallinu fyrir þremur vikum er mótið aftur orðið galopið. Ogier, Thierry Neuville og Ott Tanak eiga allir möguleika á titli.

Á pappír er það Ogier sem er líklegastur til að vinna í Wales. Frakkinn hefur unnið rallið alls fimm sinnum, oftar en nokkur annar. Hvorki Tanak né Neuville hafa unnið á blautu skógarvegunum.

Ogier ekur Citroen í ár og hefur hann verið allt annað en sáttur með bílinn. ,,Það er enn mikil vinna fyrir höndum hjá liðinu við að bæta bílinn’’ sagði Frakkinn eftir tyrkneska rallið.

Tanak leiðir mótið, 18 stigum á undan Ogier sem hefur 13 stiga forskot á Neuville. Það er ekki bara hörkuslagur í keppni ökuþóra heldur einnig í keppni bílasmiða.

Hyundai og Toyota berjast um titil bílasmiða og er það Suður-kóreski framleiðandinn sem leiðir með 19 stiga forskot á ríkjandi meistara Toyota. Hyundai er að leitast eftir sínum fyrsta sigri síðan fyrirtækið hóf þátttöku í ralli árið 2000.

Áhugverður slagur í WRC2

Það verður ekki bara veisla að fylgjast með baráttunni um fyrsta sætið yfir heildina. Í WRC2 verður harður slagur og stór nöfn að keppa.

Feðgarnir Petter og Oliver Solberg mæta til leiks hvor á sínum Volkswagen Polo R5. Þetta verður síðasta keppni Petters í heimsmeistaramótinu en Normaðurinn varð meistari árið 2003.

Þetta verður hins vegar fyrsta keppni Olivers í WRC og verður gaman að sjá hvernig keppnin milli feðgana verður. Ekki má gleyma Kalle Rovenpera á Skoda en Finninn ungi hefur verið að gera það gott í WRC2 í ár.

Að venju hefst rallið á stuttri áhorfendaleið á fimmtudaginn, en að þessu sinni verður hún í ensku borginni Liverpool. Á föstudag og laugardag taka við langar og krefjandi leiðir í gegnum velsku skóganna og rallinu líkur svo á sunnudag.

Bragi Þórðarson

Leave a Reply