Uppgjör: Tanak kominn með aðra höndina á titilinn

Ott Tanak stóð uppi sem sigurvegari í tólftu og þriðju síðustu umferð heimsmeistaramótsins í ralli sem fram fór á Bretlandseyjum um helgina.

Ekki nóg með að tryggja sér 25 stig fyrir sigurinn heldur náði Eistlendingurinn einnig hraðasta tíma á ofurleiðinni. Tanak fékk því fullt hús stiga, 30 stig, og er forusta hans í mótinu komin í 28 stig þegar tvær umferðir eru eftir.

Slagurinn í keppni bílasmiða hefur sjaldan verið jafn harður. Eftir góðan árangur Toyota um helgina hefur japanski framleiðandinn nú minnkað bilið í Hyundai niður í átta stig.

Eins og venjulega voru aðstæður í Wales, þar sem stærsti hluti rallsins fór fram, mjög erfiðar. Að venju rigndi mikið sem gerði skógarvegina afar hála.

Þessu komst Jari-Matti Latvala að á föstudeginum er hann kútvelti Toyota bifreið sinni og varð frá að hverfa. Atvikið gæti verið síðasti naglinn í líkkistu Latvala því talið er að Finninn fái ekki samning sinn endurnýjaðan hjá Toyota á næsta ári.

Á sama stað og Latvala velti hafði heimamaðurinn Elfyn Evans brotið spyrnu í fyrri ferð leiðarinnar. Atvikið kostaði Evans 43 sekúndur, að lokum endaði hann fimmti, 48 sekúndum á eftir fyrsta sætinu.

Craig Breen kom inn í Hyundai liðið í Bretlandi en rétt eins og Latvala velti hann bíl sínum. Þrátt fyrir að rúlla rúma fjóra hringi kláraði Írinn keppnina, reyndar rúmum níu mínútum á eftir Tanak.

Þremenningarnir sem börðust um titilinn í fyrra og svo aftur í ár enduðu allir á verðlaunapalli í fyrsta skiptið síðan í Monte Carlo rallinu í Janúar.

Þrátt fyrir að Sebastien Ogier endaði þriðji á eftir Thierry Neuville fengu þeir jafn mörg stig í mótinu þar sem Ogier var með betri tíma á ofurleiðinni.

Úrslitin þýða að staða Neuville er orðin afar slæm þegar tvær keppnir eru eftir. Belginn er nú 41 stigi á eftir Tanak sem er nú kominn með aðra höndina á titilinn.

Bragi Þórðarson

Leave a Reply