Af hverju Rednek?

11070183_10202525959550424_2722252906644555954_n

Árlega er Rednek bikarmótið haldið á rallýcrossbrautinni við Krýsvíkurveg. Fjörutíu og fjórir keppendur mættu á bílum sínum í ár og úr varð hörkukeppni og mikil skemmtun. Ekki verður fjallað um keppnina hér heldur nafngift hennar: „Rednek“ bikarmótið.

Rednek mótið er minningarmót, haldið til minningar um mann sem hét Gunnar Viðarsson. Gunni var rauðhærður og notaði oft óhefðbundnar aðferðir við úrlausn mála. Lengi var hann kallaður Gunni „Rauði“ en svo breyttist það í Gunni „Rednek“.

Gunni Rednek fæddist á Ísafirði 3. ágúst 1980 og lést þann 8. mars 2015 eftir erfið veikindi, húðkrabbamein.

Spor Gunna í Íslensku rallýcross-sögunni eru dýpri en spor flestra annarra. Gunni var ástríðufullur keppandi en hann hafði ástríðu fyrir mörgu. Drifkraftur hans og ástríða gerðu hann að þeirri fyrirmynd sem raun ber vitni.

Ástríðan

Margir hafa ástríðu fyrir því að smíða keppnisbíla, aðrir fyrir því að aka hratt og keppa og enn aðrir fyrir félagsmálum og uppbyggingarstarfi. Gunni hafði ekki aðeins ástríðu fyrir þessu öllu heldur bjó hann yfir drifkrafti til að gera þetta allt með miklum ágætum. Það var sannkölluð himnasending fyrir íslenskt rallýcross að fá mann eins og Gunna; mann sem vildi hafa hlutina fullkomna – mann sem lagði sig allan í að færa hlutina í það horf. Þegar keppnisdagur rann upp mætti Gunni snemma til að undirbúa keppnishaldið, settist svo í bílinn og keppti. Hann gat hjálpað og þess vegna gerði hann það. Haustið 2014 áskotnaðist rallýcrossklúbbnum húsnæði sem þurfti að flytja á staðinn. Gunni var einn þeirra sem komu að því. Veikindin voru farin að há honum og það fór ekki framhjá neinum í hvað stefndi. Það truflaði Gunna ekki, hann gat gert gagn og því gerði hann það.

Hjálpsemin

Gunni aðstoðaði marga, m.a. þá sem voru að stíga sín fyrstu skref í sportinu. Hann fór ekki í manngreinarálit; allir áttu athygli hans óskipta og þannig stuðlaði hann að fjölgun í hópi keppenda. Oft var hringt í Gunna þegar einhver var í vandræðum með Hondu í bílskúr úti í bæ. Þegar svo bar við átti hann til að hverfa að heiman í marga klukkutíma en skilaði sér svo að málinu leystu. Vandamál voru verkefni, skemmtilegustu verkefnin, því þeim fylgdu lausnir og þær voru gulrótin í öllu hjá Gunna.

Keppnismaðurinn

Gunni fagnaði mörgum titlum enda var hann feikigóður ökumaður. Það var ekkert grín að keppa við hann. Eflaust pældi hann meira en aðrir í öllum mögulegum smáatriðum í akstrinum og hegðun bílsins og eflaust líka mótherjunum. Gunni pældi mikið í hlutunum, hann settist líka niður með sínum helstu keppinautum og deildi upplýsingum. Með árangur að leiðarljósi auðnaðist honum að komast skörinni hærra en flestir í kringum hann, samt var honum dýrmætara að efla allt í kringum sig en það eitt að vinna. Gunni var ríkjandi Íslandsmeistari í rallýcrossi þegar hann féll frá.

Rednekmótið

Að Gunna gengnum efndu félagar hans og vinir til minningarmóts. Fyrsta Rednek mótið var haldið haustið 2015, árið sem Gunni lést. Nú eru Rednek mótin orðin fimm, árlegur viðburður og fastur punktur í keppnisdagatali íslenskra aksturíþrótta. Þó mörg okkar þekki sögu Gunna er vel við hæfi að rifja hana upp. Bæði til að heiðra minningu góðs drengs en líka til að festa Rednekmótið í sessi um ókomna tíð.

Hinar fjölmörgu hliðar Gunna

Listamaðurinn Gunni kom snemma fram en sú hlið hans var mörgum hulin. Á meðan flestir krakkar teiknuðu Óla prik teiknaði Gunni form með skuggum því hann var búinn að ná tökum á þrívíddinni á tvívíðu blaði. Afi hans, Finnur, var mikill hagleiksmaður og kenndi Gunna undirstöðu skugga í teikningu. Lítið fór fyrir listamanninum Gunna en vinnufélagar hans í prentsmiðju Morgunblaðsins ráku augun endrum og sinnum í teikningar á borðinu hans; teikningar sem fengu fólk til að stoppa og taka eitt skref til baka til að skoða betur. Það var svo haustið 2014 að Gunni hélt sína fyrstu myndlistarsýningu. Hún var í Hamraborg á Ísafirði og vakti mikla hrifningu. Það kom Gunna mjög á óvart að myndirnar hans seldust. Síst átti hann von á því, að því er fram kom í samtölum við vini hans og fjölskyldu. Gunni talaði reyndar um að hann væri ánægður að fá fyrir römmunum.

Gunni var mjög laginn við vélar o.þ.h. hluti. Aðeins nokkurra mánaða gamall var hann að dunda sér við að skrúfa peru úr perustæði en hann átti eftir að skrúfa margt um ævina. Um fermingu voru fyrstu mótorhjólavélarnar skrúfaðar sundur og saman. Öll vinnubrögð og frágangur voru til fyrirmyndar: Framúrskarandi er orðið sem lýsir því hvað best.

Hvað með peninga?

Gunni seldi eitthvað af myndum en peningar voru ekki það sem hann sóttist eftir. Sjálfsagt veit enginn hverju hann sóttist eftir; kannski var það bara Eureka augnablikið þegar lausn á flóknu vandamáli var fundin, eða þegar verk var orðið fullkomið. Peningar gera flest okkur að öpum, en Gunni var ekki á þeim stað.

Fullkomunarárátta?

Líkt og verk meistara á borð við Leonardo da Vinci o.fl. þá urðu verk Gunna ekki alltaf fullkomin og þegar svo bar við var verkinu hent og byrjað upp á nýtt. Það sem eftir stóð var hins vegar fullkomið. Gunni var duglegur að koma sér upp „gulrót“, einhverju til að eltast við og gefa verkinu tilgang. Fjórhjóladrifna Rednek Hondan er gott dæmi um það.

Hondur
Rednek Hondan er sú bláa, keppnisbíllinn í bakgrunni

Kveðja frá Ástralíu

Gunni fékk þá hugmynd að breyta Honda bíl, setja fjórhjóladrif í hann. Það er aðeins meira en að segja það og margir höfðu reynt þetta með misjöfnum árangri. Það var Gunna líkt að pæla vandlega í því hvað hann var að gera, skrá allt nákvæmlega og fullkomna verkið. Gunni hugsaði verkefnið í tvö ár áður en hann byrjaði, en í raun var verkið þá þegar orðið fullkomnað. Á einhverjum spjallþræði fékk Gunni spurningu frá Ástralíu, hvernig hann gerði þetta og hitt í breytingunni. Hann svaraði um hæl með því að senda smíðateikningarnar ásamt nákvæmri lýsingu á því sem hann gerði. Allt var þetta teiknað, myndað og skjalfest meðan smíðin fór fram. Sá sem fékk þetta í hendurnar brást vel við en spurði hví í ósköpunum hann væri að láta svo mikla vinnu frá sér án kröfu um greiðslu. Gunni sagði að hann væri bara ekkert að pæla í því. Hann var búinn að nota þetta og aðrir mættu alveg njóta. Þarna er Gunna heitnum rétt lýst; eigin hagsmunir viku fyrir hjálpseminni. Að Gunna gengnum fékk fjölskylda hans kveðju frá áströlskum bílaklúbb, með kærum þökkum fyrir ómetanlegt framlag sem hefði hjálpað mörgum þar ytra og fleira jákvætt kom fram í þeirri kveðju.

 

Húmoristinn

Gunni hafði sérstakan húmor, þennan sem sýndi sig sjaldan en sigraði alla nærstadda þegar svo bar við. Eitt sinn voru nokkrir vinir staddir á veitingastað og voru að panta mat. Einn þeirra, Kristinn Sveinsson (Kiddi bílamálari), er þannig gerður að honum er lífsins ómögulegt að panta af matseðli án viðbóta. Kristinn pantaði og bætti við að það þyrfti að taka þetta burt og bæta öðru við, gera svona og svona o.s.frv. Gunni var næstur og pantaði einn hamborgara en bað um að öll kornin ofan af hamborgarabrauðinu yrðu plokkuð af. Jæja, kannski ekki besti brandarinn á prenti en í þessum félagsskap og við þessar aðstæður þá dugði þetta til að allir nærstaddir sprungu úr hlátri að þjóninum meðtöldum.

Síminn

Gunni hafði símanúmerið 86HONDA, en hann hafði lítið gaman af því að tala í síma. Til að gera það bærilegra gekk hann rösklega um eða rissaði eitthvað á blað, sem var reyndar algengara. Það hæfir ekki heila á yfirsnúningi að eyða tímanum í símtal. Líklega þurfti Gunni meiri ögrun, eitthvað meira krefjandi. Hann hafði samt alltaf tíma fyrir vini sína og var sannur vinur vina sinna.

GunnarRednek
Sé myndinni hvolft má lesa rednek en Gunnar snúi hún rétt.

Meira um listamanninn

Meðfylgjandi myndaalbúm sýnir nokkur verka Gunna; útskornir stimplar og teikningar. Allt er þetta gert fríhendis. Gunni notaði til að mynda aldrei reglustiku, augað réði för og þjálfaðar hendur fylgdu. Gunni fiktaði líka eitthvað við ritað mál, rímur. Hvert það hefði leitt fáum við ekki að vita. Það er bara eitt af fjölmörgu sem við verðum að sætta okkur við að hafa misst daginn sem Gunni kvaddi þennan heim.

 

Kvaddi með stæl

Það duldist Gunna ekki frekar en öðrum í hvað stefndi veturinn 2014-2015. Veikndin versnuðu og engin lækning til. Hér kemur gullkorn sem lýsir Gunna svo vel:

Það var óhugsandi að eitthvað var að fara að gerast og ekkert búið að pæla í því, ekkert skipulagt. Í samstarfi við Dagbjörtu systur sína skipulagði Gunni útförina, sína eigin útför. Gunni kvaðst ekki þekkja vini sína í jakkafötum, því væri rétt að setja á „dresscode“, þ.e. vinnuföt eða keppnisgalli. Flestir mættu í keppnisgallanum. Presturinn sagðist aldrei hafa lent í annarri eins útför. Kristinn Sveinsson bílamálari, Smári Jónsson ásamt fleirum sáu um að mála kistuna sem var máluð í litum keppnisbílsins, merkt merki Gunna og „Ginger inside“, ekki „Intel inside“ eins og á tölvunum. „Það var mjög skrítið að gera þetta fyrir vin sinn“, sagði Kristinn en sagðist líka vera mjög glaður að hafa gert þetta. „Hann kvaddi með stæl,“ sagði Kristinn að lokum.

Síðustu orð Gunna sagði hann við Dagbjörtu systur sína. Dagbjört spurði hvort eitthvað væri hægt að gera fyrir hann, hvort hann vantaði eitthvað. Svarið var, líkt og svo oft áður: „Nei takk, ég er góður“, lukti svo augunum fyrir sína hinstu hvílu.

 

 

Kveðjan

Mótorsportheimurinn fjölmennti í Fossvogskirkju við útför Gunna. Það var ljóst að hér fór enginn meðalmaður og missirinn var mikill. Gunni var da Vinci okkar tíma; lista- og handverksmaður, framúrskarandi í öllu sem hann tók sér fyrir hendur, vinur vina sinna. Fyrirmynd sem komandi kynslóðir munu heiðra á Rednekmótum framtíðarinnar.

Þórður Bragason skráði.

Viðmælendur:

Dagbjört Fjóla Hafsteinsdóttir
Gunnsteinn Smárason
Hilmar B. Þráinsson
Íris Dögg Ásmundsdóttir
Kristinn V. Sveinsson
Smári Jónsson
Viðar Finnsson

Myndir: Fengnar af facebook síðu Gunna, frá aðstandendum og vinum.

Leave a Reply